Monday, July 17, 2006

Aðlögunarferð, geitahirðir og kokkur með matareitrun

Eins og til stóð, fóru strákarnir upp í Punji Pass, sér til aðlögunar og yndisauka. Þar fóru fram vísindalegar tilraunir á búnaði piltanna, enda hlutfall vísindamenntaðra í hópnum ansi hátt. Gangan niður í grunnbúðir var óskemmtileg, éljagangur og snjóflóðahætta og þungt göngufæri. Þeir fengu svo óvænta heimsókn þegar Frakki nokkur kom til þeirra eftir að hafa snúið við á einhverri gönguleið sem lokaðist vegna veðursins. Hann hélt svo sína leið.

Daginn eftir var hvíldardagur.

Í gær pökkuðu strákarnir fullt af drasli í bakpokana og héldu aftur upp fjallið. Þeir settu upp aðrar búðir í 4500 m og gistu þar. Í morgun gengu þeir 300 m ofar, skildu þar eftir tjald fyrir síðari ferðir og gengu svo upp fyrir 5000 m til að ná sem mestri aðlögun í ferðinni. Síðan var haldið niður í grunnbúðir. Þá kemur til sögunnar geitahirðir nokkur pakistanskur, sem kom til strákanna og bar sig heldur aumlega. Hann hafði dottið og skorið sig á fingri. Sissi brá sér í latexhanskana og gerði að sárum hirðisins sem varð himinlifandi yfir þessum móttökum. Já, menn hætta ekkert að vera björgunarsveitakappar þótt þeir fari til Pakistan að klifra.

Á morgun ætla drengirnir að hvíla sig en halda svo aftur uppeftir daginn eftir.

Í öðrum fréttum er það helst að kokkur strákanna er með matareitrun og það af eigin mat. Ekki traustvekjandi.
Einnig má nefna að strákarnir eru orðnir vel útiteknir, jafnvel sólbrenndir og stefna ótrauðir á að koma heim með "maximum tan."

Næstu tvær vikur tekur Tinni (bróðir Sissa) við fréttaflutningi af strákunum. Ég þarf nefninlega líka að ná í maximum tan, reyndar bara á Spáni.

Kveðja,

AB

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Áfram strákar, þið getið þetta
xo Thora i New York

5:42 PM  

Post a Comment

<< Home