Sunday, July 09, 2006

Hvild eftir ævintyri a Pololeik

Strákarnir hringdu heim í dag. Þeir eru nú við afslöppun í bænum Darkot (ábyrgist ekki stafsetningu á sérnöfnum) í Yasing dal. Eins og til stóð fóru þeir á pólóleikinn fræga í Shandur Pass, en sá staður er í 3800 m hæð. Þetta var ekki tíðindalítill viðburður því þegar leikar stóðu sem hæst varð uppþot meðal áhorfenda, en þeirra á meðal var Pervez Musharraf, forseti Pakistan. Einhverjir meðal áhorfenda töldu sig finna jarðskjálftakipp og við það fór allt úr skorðum, áhorfendur hlupu út um allt, m.a. inn á völlinn. Öryggisgæslan var ströng vegna viðveru forsetans og beitti lögreglan talsverðu harðræði við að koma ró á mannskapinn. Heyrðist mér Steppo segja í gegnum gervihnattasímann að að lögreglan hafi notað bambusprik til að pota í mannskapinn! Piltarnir sluppu þó við bambusstungur og högg og prísuðu sig sæla, enda telst það stórlega ofmetin reynsla að vera barinn með bambus.

Steppo sagði stemmninguna hjá þeim vera fína fyrir utan magakveisu sem eitthvað hefur hrjáð Helga og Sissa. Strákarnir eru líka fegnir að hafa lokið jeppaferðalögum um stund, þeir voru orðnir hundleiðir á að hossast í fleiri tíma á erfiðum vegum. Hitinn hjá þeim er viðráðanlegur núna, um 25° C en var yfir 30° C á pólóleiknum, og það í 3800 m hæð.

Nú munu þeir hvílast í tvo daga og halda svo upp í grunnbúðir við Punji Pass. Þar skammt frá er Punji Peak, tæplega 6000 m tindur sem þeir hyggjast reyna sig við.

Nú fer púlið að taka við, fylgist með!

Kveðja,

AB

1 Comments:

Blogger -H. said...

Meðleigjandi minn og stór magister segir bara eitt ráð við magakveisum og það er glas af blóðugri Maríu á fastandi maga áður en árbítur er reiddur fram! Hann er af ceylonsku bergi brotinn og þekkir vel magakveisur þær austurlensku.

Það er hins vegar allt önnur saga hversu vel það fer með hæðaraðlögun...
...þó virðist virka vel á Rússa ;o)

Gangi ykkur vel drengir!
Halli

3:28 AM  

Post a Comment

<< Home