Tuesday, July 04, 2006

Fjallganga i Chitral Gol

Strákarnir hringdu í dag úr gervihnattasímanum og kváðust vera vel stemmdir uppi í fjöllunum í Chitral Gol þjóðgarðinum. Þeir eru búnir að ganga mikið í dag, hækkuðu sig um 1400 m, upp í 3200 m.y.s. Þeir vörðu síðustu tveimur dögum í menningarskoðun í Kalasha dölunum, enda stórmerkilegt fólk sem býr á þessum slóðum og saga þess áhugaverð.

Næstu daga halda þeir áfram á þessari göngu, meðal annars yfir fjallaskarð í tæplega 4000 m hæð og enda svo á bílferð aftur til Chitral. Svo styttist í að haldið verði upp í fjöllin fyrir alvöru, upp í grunnbúðir þaðan sem piltarnir ætla að klífa ýmis fjöll.

Í dag er um 37 °C í Islamabad en töluvert svalara þar sem strákarnir eru núna. Hálfdán tjáði mér að á kvöldin kólni nokkuð, þannig að það er víðar en á Fróni sem sumarnætur (allavega sumar sumarnætur:) eru kaldar.

Tæknin sem gervihnattasíminn byggir á býður kannski ekki upp á fjörlegar samræður um verðbólgu og pólítík, en virkar engu að síður vel og strákarnir munu láta heyra í sér aftur von bráðar.

Stay tuned! Eða eitthvað...

Kveðja,

AB

P.S.

Sissi vildi koma því á framfæri að þeir eru ansi nærri landamærum Afghanistan. Þeir áttu þó síður von á að vera þvælast eitthvað þangað yfir...:)

0 Comments:

Post a Comment

<< Home