Thursday, July 13, 2006

Komnir upp i basecamp.

Nú eru strákarnir komnir upp í grunnbúðir, skammt neðan við Punji Pass. Búðirnar liggja í 3700 m hæð þar munu piltarnir hafa bækistöðvar næstu 40 daga. Þarna er meiri hitasveifla milli dags og nætur og veðrið óútreiknanlegra en fyrr í ferðinni. Á leiðinni uppeftir í gær var hitinn um 25 °C, en þegar strákarnir hringdu áðan var hitinn um -2 °C, mikil snjókoma og rúmlega 20 cm jafnfallinn snjór yfir öllu.

Ferðalagið uppeftir var eftirminnilegt, hvorki meira né minna en 22 burðarmenn auk 5 asna sáu um að bera búnaðinn á áfangastað. Miðað við þann búnað sem strákarnir tóku með sér, þá er ljóst að hver og einn burðarmaður hefur varla borið mikla þyngd, því það voru nú engin ósköp. En líkt og Sissi skrifaði hér fyrir stuttu, þá snýst þetta líklegast um atvinnusköpun fyrir heimamenn. Þó er hugsanlegt að piltarnir hafi farið að mínum ráðum og tekið með í ferðina bensínknúna rafstöð, örbylgjuofn, 1944 réttina (fyrir sjálfstæða Íslendinga, líka í Pakistan) og 42" plasma sjónvarp fyrir HM áhorf. Þá hefur væntanlega ekki veitt af þessum burðarmannaher. Maður veit ekki...

En að öllu gríni slepptu þá var hljóðið í þeim gott og hyggjast þeir ganga upp í Punji Pass (4700 m) á morgun. Daginn eftir ætla þeir að tjalda þar fyrir ofan og aðlagast þunna loftinu betur. Og fyrst minnst er á tjöld, þá eru þau víst heldur bágborin tjöldin sem Razaq (eða Rassi, eins og strákarnir kalla hann) fjallaþjónustufrömuður útvegaði strákunum. Það bókstaflega rigndi í gengum þau í nótt sem leið og voru þeir kappar heldur fúlir með það. En þetta stendur víst til bóta.

Þeir félagar hringja svo aftur heim innan skamms og færa okkur fréttir af fleiri ævintýrum.


Kveðja,

AB


--www.alpaklifur.blogspot.com--- Síðan sem allir eru að tala um.

1 Comments:

Blogger pixy said...

berjast strákar!
stolt af ykkur

Herdís, nýlaus úr hafís á Grænlandi...

7:04 PM  

Post a Comment

<< Home