Thursday, June 29, 2006

Ökuferð og VISA

Jæja, piltarnir fóru á flakk í dag og keyrðu til Murree, sem er einhversstaðar í fjöllunum nærri Islamabad. Þar var aðeins viðráðanlegra hitastig fyrir föla Íslendinga. Nú eru þeir á heimleið og stýrir Helgi fararskjótanum, vinstra megin á veginum eins og lög gera ráð fyrir í Pakistan. Hann ætti nú ekki að eiga í vandræðum með það blessaður, enda með bretablóð í æðum sínum.

Einnig bárust mér skondin boð frá þeim köppum um að þeir hefðu lent í enn frekari vegabréfavandræðum. Hefst nú tilvitnum í smáskilaboð frá Hálfdáni: ,,Jæja, svo var það meira VISA-vesen i morgun thvi thad er svo absurd ad vid thurfum i raun ekki VISA." Tilvitnun lýkur.

Hvað þetta þýðir vita bara strákarnir, útlendingaeftirlitið í Pakistan og Guð.
Ég geri samt fastlega ráð fyrir að þeir séu að ekki að ræða um krítarkortin sín.

Kveðja,

AB

Wednesday, June 28, 2006

Komnir til Pakistan

Ég fékk skilaboð frá strákunum í nótt. Þeir eru komnir til borgarinnar Rawalpindi en þar munu þeir gista á hóteli næstu þrjár nætur. Rawalpindi er skammt sunnan við höfuðborgina Islamabad.

Strákarnir sögðu að þeir hefðu sloppið við alla yfirvigt í fluginu en lent í smá vegabréfavandræðum sem þó leystust. Þá sögðu þeir að pakistanskur vinur Helga sem heitir því magnaða nafni Muhamed Ali, hafi verið þeim mikið til aðstoðar við komuna.

Ekki var það fleira í bili.

Kveðja,

AB

Tuesday, June 27, 2006

Ferðalagið hafið.

Nú eru strákarnir lagðir af stað. Þeir flugu til London í morgun og fljúga áfram í kvöld til Islamabad í Pakistan. Ég hitti þá í gær og þá var undirbúningi að ljúka og þeir orðnir spenntir að komast af stað.

Strákarnir munu hringja heim reglulega og færa okkur fréttir af gangi mála. Ég og Tinni, bróðir Sissa, munum sjá um að koma upplýsingunum á framfæri, bæði hér á síðunni og með tölvupósti til ættingja og vina. Verið óhrædd við að nota athugasemdadálkinn til að spyrja spurninga eða senda strákunum kveðju.

Kveðja,

Andri Bjarnason (AB)

Monday, June 26, 2006

Vesen í Hindu Kush

Var að rekast á frétt um að Hindu Kush hefði verið lokað núna um helgina af yfirvöldum í Pakistan. Þetta er ekki fjallgarðurinn sem við erum að fara í, en ekki svo langt í burtu. Vonum að þetta verði ekkert vesen, svo sem ekkert sem gefur það til kynna. Okkar maður í Pakistan hefur ekkert látið heyra í sér.

Dúnúlpa = klúður
Annars vorum við á þönum í allan dag að græja hluti. Dúnúlpan mín klúðraðist hjá Útilíf og ég sendi vondar bylgur til starfsmanna sérvörulagersins þeirra sem drulluðust ekki til að senda úlpuna mína til Ragga í Kringlunni í dag. Ég ætla að senda þeim smá hatur í hvert skipti sem mér verður kalt næstu 3 mánuði.

Bakpoki = klúður
Bakpokatilraun #10 klúðraðist líka, þrátt fyrir að öðlingurinn hann Kristinn vinnufélagi minn hafi gengið 30x lengra í að aðstoða mig með þetta en ég hef kynnst áður hjá nokkrum manni. Frábært að fá svona góða hjálp í lokastressinu, þó að þetta hafi ekki gengið á endanum. En það er eitt tromp í viðbót á hendi.

Annars mun ég klifra með 55L Black Diamond Shadow og plástra á hann 2 hliðarhólfum af gömlum Karrimor sem ég á. Vonum að það gangi.

Svo er bara mæting í hús HSSR kl. 04:40 í fyrramálið. Fyrsta alpastart ferðarinnar af mörgum. Jakk...

Sunday, June 25, 2006

Allt að koma...

Pökkuðum draslinu í dag og prófuðum sólarselluna ásamt tengingum fyrir hin ýmsu tæki. Þetta virkar ágætlega virðist vera, fínn straumur úr græjunni.

Við erum með troðinn bakpoka og 20 kg duffel á mann ásamt 35 kg duffel með þurrmat og tjöldunum. Ætli draslið sé ekki eitthvað yfir 150 kg. í heildina.

Þó betra en maður þorði að vona, enda verða menn nánast í sömu buxunum næstu 3 mánuði. Fyrir utan klifurfötin eru þetta síðbuxur, kvartbuxur, 2 bolir, skyrta og eitthvað lítið meira. Í þrjá mánuði.

Tinni bróðir ætlar að vera tengiliðurinn okkar, og hugsanlega Andri Bjarna líka, og sjá um að uppfæra þessa síðu meðan við erum í fjöllunum.

Heilmikið af reddingum eftir á morgun og nú er eins gott að gleyma engu ;)

Friday, June 23, 2006

Reddingar og bakpokavesen


Lyfjaval eru miklir öðlingar, gáfu okkur mjög góð kjör á lyfjunum í dag. Fáum þau í hendur á mánudag.

Útilíf
Kláraði Útilíf að mestu í dag, keyptum meðal annars North Face dúnara fyrir Helga og mig, með hettu, ógegnumstungna og 700 fillpower (28 grömm af dúni af þessum gæðum fylla 700 rúmtommur, hærra gildi = betra). Mín er reyndar það eina sem var ekki komið. Keyptum líka smá Mountain House til að fá fjölbreytni í matarræðið, en aðallega verðum við með Real Turmat. Ýmislegt smálegt í viðbót gerði 200 þúsund kall í heildina, en Raggi í Útilífi gat sem betur fer gert eitthvað smá fyrir okkur. Raggi fær props.

Eilífðarmál
Bakpoka fokk er komið í nýjar hæðir, mgear.com klikkuðu um síðustu helgi og komu pokanum ekki á félaga minn í Florida á réttum tíma, klikkuðu svo aftur þegar þeir sendu í rangt fylki fyrir seinni tilraun. Nú er ég að reyna að fá megaflottan poka frá bentgate.com, Acrux frá Arc'teryx, mjög spennó. Kemur kannski á mánudaginn. Annars er ég í rugli.

Sólarrafhlöður
Load sellurnar okkar komnar í hús, og mönnum brá í brún þegar við fengum fjögur stykki í stað einnar sem við borguðum fyrir. Óvæntur bónus.

Á morgun
Talstöðvar og GPS á morgun, kíkja í Beco. Þurfti að vinna lengur en planað var í dag, þannig að minna varð úr deginum í dag. Síðan komu nokkrir vinir í grill, óformlegt kveðjupartý, sem var eðal.

Wednesday, June 21, 2006

Saumaskapur og almenn gleði

Eftir að flensan tók sig upp hjá mér síðustu 2 daga ákvað læknir okkar Pakistanfara, Gunnar Guðmundsson lungnalæknir og helsti sérfræðingur hérlendis í háfjallaveiki, að skella mér á pensillín. Þvílík gleði, þá getur maður kannski náð nætursvefni aðra nótt.

Omega vs. Vega
Í dag kíktum við á mikinn öðling á skóverkstæðinu hjá Össuri, sem blés út, beyglaði, klippti, mixaði innlegg og ég veit ekki hvað, í skóna okkar. Siz og Hálfdán verða í Scarpa Omega, en þeir eru 716 grömmum léttari parið en Scarpa Vega (Inverno) sem Helgi og Steppo klifra í. Þetta fæst aðallega með mjög léttum innrisokk (114 grömm stykkið) sem er hitaður og fittaður þannig á fótinn. Þetta vorum við að dúlla okkur við í dag.

Einn ég sit og sauma
Kvöldið fór svo í saumaskap á Malarhöfðanum, en Aggú (?) vinur hans Steppo leyfði okkur sampla það aðeins. Þetta gekk nú aðeins brösulega fyrst en við náðum þokkalegum tökum á saumaskapnum, og síðustu tilraunirnar litu bara ágætlega út.



Fínt að kunna þetta, þó að við vonum náttúrulega að við þurfum ekki að láta reyna á hæfnina.

Planið á morgun
Nú er UNDIRbúningur kominn í YFIRgír. Planið á morgun;

10: Útilíf - festa kaup á skrilljón pökkum af þurrmat og ýmsum búnaði sem enn vantar
12: Kíkja í R. Sigmundsson og taka stöðuna á VHF stöðvum og GPS
14: Cintamani - tékka á búnaði
16: Beco - vantar m.a. batteríhaldara fyrir Canon
17: Kaupa lyfin
19: Hittast með draslið (eða það sem er reddí af því) og byrja aðeins að pakka og skoða.
Búnir að fá sólarsellurnar á burðardýrið okkar. Vona svo bara að bakpokinn minn fari að skila sér.

Good times...

Saturday, June 17, 2006

Ferðin og ferðalangar

Sumarið 2005 ákváðum við fjórir að fara í 3 mánaða æfingaferð til Pakistan og Indlands. Við erum;
Hálfdán
Hálfdán Ágústsson
Helgi Hall
Stefán Örn Kristjánsson
Sveinn Fr. Sveinsson
Ferðalangarnir eru á aldrinum 24-31 árs og allir félagar í Íslenska alpaklúbbnum og undanfarar (sérhæfðir fjallabjörgunarmenn) í Hjálparsveit skáta í Reykjavík / Björgunarsveitinni Ársæli.Helgi


Ferðaplanið
Við ætlum að fara í Hindu Raj fjallgarðinn sem er á milli Hindu Kush og Karakorum fjallgarðanna.

Á korti er þetta landsvæði milli bæjanna Chitral og Gilgit.
Á þessu svæði er mikið af 6.000 metra tindum sem eru margir óklifnir og jafnvel ónefndir. Svæðið er afar lítið heimsótt af fjallamönnum.

Þarna höfum við möguleika á að klífa marga tinda og munum einbeita okkur að verkefnum í tæknilegri kantinum.

Steppo
Ætlunin er að klifra í um tvo mánuði. Tveir okkar munu fljúga heim eftir þetta en Steppo og Sissi halda áfram til Indlands í mánuð í viðbót. Þar ætlum við að heimsækja Goa, stunda grjótglímu (e. boulder), t.d. í Hampi, sem er magnaður staður.

Hvað höfum við verið að sýsla síðustu árin?
Allir höfum við stundað almenna ferðamennsku frá unga aldri sem á síðustu tæpu tíu árum hefur þróast út í meira krefjandi fjallamennsku, m.a. sem hluti af starfi undanfara í fyrrnefndum björgunarsveitum, en einnig með þátttöku í starfi Íslenska Alpaklúbbsins (ÍSALP), leiðsögn og á eigin vegum.

Sissi á Ben Nevis
Innanlands höfum við safnað í reynslubankann með mikilli ástundun á fjallamennsku og klifri, með leiðsögn í fjalla- og jöklaferðum m.a. fyrir Íslenska fjallaleiðsögumenn, auk þess að við höfum allir kennt námskeið um fjallamennsku, ísklifur og ferðamennsku í brattlendi og jöklum.

Eins höfum við allir reynslu af fjallaferðum erlendis og ber þar helst að telja ís- og klettaklifur í Noregi, Skotlandi, Svíþjóð, Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni, Malasíu og Tælandi, sem og krefjandi fjallgöngur í Rússlandi, Bretlandi, Ítalíu, Frakklandi (m.a. Mont Blanc, 4.807 m), Bandaríkjunum (m.a. Long's Peak, 4.345 m), Indonesíu (m.a. Gunung Agung, 3.142 m) og í Kashmír-héraði Norður-Indlands.

Styrktaraðilar
Björgunarsveitin Ársæll og Hjálparsveit Skáta í Reykjavík hafa hjálpað okkur að láta þetta gerast.
Við klifrum allir í Cintamani frá toppi til táar, og höfum flestir notað dót frá þeim í mörg ár
R. Sigmundsson er umboðsaðili fyrir Garmin GPS og Entel talstöðvar, léttustu VHF stöðvarnar á markaðnum.
Vörurnar frá Cintamani og R.Sigmunssyni eru úrvalsstöff og við mælum óhikað með þeim fyrir útivistarfólk.

Ítarefni
Hindu Raj Expedition 2000
Trekking Breti í Hindu Raj
Fjöllin í Hindu Raj
Fjöllin í Hindu Raj - kort

Thursday, June 15, 2006

Veturinn

Steppo og Helgi komu túrnum á koppinn, þeir mættu nú skrifa meira um tilurð hans hérna. Ég fékk hringingu í ágúst 2005, að mig minnir;

"Sissi, viltu koma í stóra ferð, kannski 3 mánuði?"
"Já"
"Viltu vita hvað?"
"Ekkert frekar"
"Kúl, seinna"

Síðan komst aðeins meiri mynd á ferðaplanið. Klifruðum eitthvað saman í vetur, bæði í ís og klettum, einhverjar ferðir, t.d. á Hrútsfjall og Hnjúkinn (allt að þrisvar í vor). Síðan æfðum við í Gym '80, aðeins mismunandi fasar og enduðum á cross fit æfingum í vor. Lífgað upp á þetta með útihlaupum og hjólreiðum, hinu og þessu.

Og nú er þetta alveg að bresta á, úff...

Síðustu dagar

Frekar mikil þróun.
  • Okkar maður í Pakistan búinn að taka tilboðinu
  • 16 lyfseðlar komnir í hús (reyna að fá díl á lyf)
  • bólusetningar búnar (er það ekki örugglega?)
  • langur undirbúningsfundur í gær
  • komnir með gervihnattasíma
  • þurfum að redda tengilið hérna heima
  • þurfum að klára kaup á þurrmat/mat/nammi/orkudrasli
  • útbúnaðarlistinn orðinn þokkalegur
  • redda rest af dóti
  • reyna að fá díl á lyf
  • fara að vinna á minni aðilum, reyna að redda sponsi á nammið og það dót allt
  • þurfum að taka 2 daga í næstu viku líka í frí, að mörgu að hyggja
  • Helgi pantaði Hótel í kvöld
  • ...og margt margt fleira

Bakpokar og ævintýri

Kvöldinu eytt í panik vegna bakpoka misskilnings. Beit í mig eftir Hrútsfjall að 55 lítrar myndu nægja og græjaði BD Shadow, sem er geggjaður poki. Það er algjörlega óraunhæft.

Náði með miklu mixi, og 7 símtölum til USA, að panta North Face Prophet 2001, 69 lítrar, carbon grind, 1600 grömm. Hef reyndar aldrei séð þennan poka, vona það besta.

Þetta var mikið mix, félagi minn kemur heim eftir 36 tíma. Vona að póstþjónustan úti standi sig.

Og já, ég er að testa þennan vef létt.